top of page

Svefnvenjur

Til að hlúa að svefni barns er mikilvægt að huga að góðum svefnvenjum og rólegu og öruggu svefnumhverfi. Það getur verið gott að hafa eftirfarandi svefnvenjur og ráð í huga sem styðja við jákvæð samskipti fyrir svefninn og ýta undir þreytu og vilja barnsins til að fara að sofa.


Röð og rútína

Röð og rútína í lífi barna veitir þeim festu og öryggi, þau vita þá hvað mun gerast og að ekki sé verið að hræra í fyrirkomulaginu frá degi til dags. Reyndu að hafa reglu á svefntímanum með því að vakna á svipuðum tíma á morgnana alla daga og hafa háttatíma á sama tíma, jafnvel þó að nóttin hafi verið erfið. Ekki „bæta upp“ fyrir erfiða nótt með því að leyfa barninu að sofa lengur að morgni. Fylgdu frekar taktinum eða rútínunni sem hentar barninu þínu á venjulegum degi. Það eru hins vegar alltaf undantekningar frá reglunni og huga þarf að sveigjanleika og miða margir foreldrar við 30 mínútna breytileika á þessari reglu.

Regla á tímasetningum á ekki við þegar börn eru veik, þá leyfum við þeim að hvíla sig eins mikið og þau þurfa en vekjum þau reglulega til að gefa þeim vökva og verkjalyf.


Útivera og hreyfing

Flest börn elska að hreyfa sig í gegnum leik og hefur öll hreyfing og útivera jákvæð áhrif á svefn barna. Flestum börnum er sama þó að rigni eða veðrið sé vont, ekki láta veðrið stoppa þig, styttu frekar tíma útiverunnar aðeins. Þegar barn er farið að sitja og skríða þá mæli ég með því að þú leyfir því að sitja í sandi eða grasi og upplifa umhverfið með höndunum, ekki einungis hugsa útiveru sem göngutúr í kerru.


Svefnherbergi barnsins

Flestir kjósa að sofa í notalegu umhverfi þar sem ríkir friður, ró og myrkur, og eru börn þar ekki undanskilin. Börn sem eru forvitin eða viðkvæm fyrir áreitum þurfa yfirleitt rólegt umhverfi og næði og stundum hjálpar að nota bakgrunnshljóðtæki eða whitenoise til að dempa utanaðkomandi hljóð. Hitastig í herbergi ætti að vera þægilegt eða í kringum 18-22°c. Ekki of heitt og ekki of kalt því það truflar svefngæðin. Forðast skal að klæða barn of mikið fyrir svefn, en foreldrar eiga oftar til að klæða börn í of mörg lög af fötum því þau sparka flest af sér ábreiðunni í svefni. Leyfðu barninu að sparka af sér og finna sína stellingu sjálft, ef barnið er með heitan búk líður því líklega vel, þótt því sé kaldara á höndum og fótum. Ef barnið er sveitt aftan á hálsi og höfði er því líklega of heitt og fækka ætti fötum eða lækka herbergishita. Ofhitnun getur verið lífshættuleg.

Margir foreldrar velja barnasvefnpoka eða værðarpoka í stað sængur, pokinn heldur jöfnum hita á barninu og kemur í veg fyrir að barnið dragi ábreiðu yfir höfuð. Margir værðarpokar veita þann möguleika að hægt sé að reifa barnið, svo hendur eru nær miðlínu en það veitir ungbörnum öryggistilfinningu. Samkvæmt ráðleggingum Embætti Landlæknis ætti alltaf að leggja börn á bakið, á stífa og flata dýnu, í öruggu ungbarnarúmi án mjúkra aukahluta eins og kodda og bangsa. Ungbörn ættu aldrei að sofa í halla vegna hættu á köfnun. Mælt er með því að börn yngri en sex mánaða sofi í sama herbergi og foreldri en barnið ætti ekki að deila rúmi með þeim vegna hættu á köfnun (sjá ítarefni í heimildaskrá).


Að svæfa eða ekki svæfa?

Margir venja börnin sín á að sofna sjálf á meðan aðrar fjölskyldur svæfa á hverju kvöldi. Það er val hverrar fjölskyldu að ákveða og þá að finna út úr því hvað hentar barninu best. Stundum eru foreldrar og barn ekki sammála og lenda í togstreitu varðandi háttatímann og svefnstað. En það er best að taka ákvörðun og standa við hana, eins og að sitja hjá barni í stað þess að liggja eða sitja við dyrnar í stað þess að fara alla leið fram í stofu. Það er misjafnt hvað það tekur langan tíma að aðlaga börn að nýrri reglu eða venju tengt svefni. Mikilvægt veganesti í það ferðalag er þolinmæði og staðfesta.


Börn þurfa rútínu fyrir svefninn svo reyndu að búa til rútínu sem hentar þínu barni eða börnum og taktu mið af því að svefnvenjur heimilisins séu kærleiksríkar og auðveldar öllum. Rútínan er vænlegra til árangurs og ef þér finnst rútínan ekki íþyngjandi eða leiðinleg. Og svo í lokin, við erum öll að gera okkar besta og stundum þá gengur allt á afturfótunum, þá er það bara þannig, ekki svekkja þig of mikið á því, á morgun kemur nýr dagur.


Gangi þér vel - Kristín

Heimildir
Allen SL, Howlett MD, Coulombe JA, Corkum PV. 2016. ABCs of SLEEPING: A review of the evidence behind pediatric sleep practice recommendations. Sleep Med Rev, Oct;29:1-14. doi: 10.1016/j.smrv.2015.08.006
Arna Skúladóttir, 2018. Draumaland. Saga útgáfa.
Rachel Y. Moon, Rebecca F. Carlin, Ivan Hand. 2022. THE TASK FORCE ON SUDDEN INFANT DEATH SYNDROME AND THE COMMITTEE ON FETUS AND NEWBORN; Sleep-Related Infant Deaths: Updated 2022 Recommendations for Reducing Infant Deaths in the Sleep Environment. Pediatrics July 2022; 150 (1).
Wendy A. Hall, Elizabeth Nethery. 2019. What does sleep hygiene have to offer children’s sleep problems? Paediatric Respiratory Reviews, Volume 31. 64-74. doi.10.1016/j.prrv.2018.10.005.
Whittall H, Kahn M, Pillion M, Gradisar M. Parents matter: barriers and solutions when implementing behavioural sleep interventions for infant sleep problems. Sleep Med. 2021 Aug;84:244-252. doi: 10.1016/j.sleep.2021.05.042
589 views

Comments


bottom of page