top of page

Kvöldrútína

Kvöldrútína yngri barna

Þegar talað er um kvöldrútínu fyrir svefn yngri barna, er átt við síðasta klukkutímann fyrir svefn. Ég mæli með að sá tími sé rólegur og notalegur fyrir alla. Dempaðu ljósin og dragðu úr áreitum eins og hægt er. Um 15 mínútum fyrir svefninn er gott að gera rútínu sem er í ákveðinni röð eins og að drekka, tannbursta og lesa. Um 5 mínútum fyrir svefn er gott að eiga rólega stund með barnið í fanginu, ganga inn í svefnherbergi, slökkva ljósin, syngja / fara með bæn eða hlý orð, leggja barnið í rúmið og bjóða góða nótt.


Best er að barnið sé lagt í það rúm á kvöldin sem það á að sofa í alla nóttina. Einnig að barnið sé lagt niður í rúmið sifjað en ekki sofnað. Ég vil hvetja þig til að búa til þína eigin rútínu, sem hentar þér og þinni fjölskyldu. Í fjölskyldum þar sem eru mörg börn á heimilinu, er rútínan oft sameiginleg fyrir yngstu börnin og þau sofa jafnvel í sama herbergi, öllum til hagræðingar. Það getur nefnilega líka veitt eldri börnum öryggistilfinningu og ró að hafa systkini hjá sér alla nóttina.



Kvöldrútína eldri barna

Rútína á kvöldin ætti að vera hluti af svefnvenjum allra, óháð aldri. Það hjálpar okkur að vinda ofan af okkur og stilla okkur inn á svefn ef við höfum rútínu. Ég ráðlegg þér eindregið að kvöldrútína eldri barna feli í sér samveru barns og foreldris. Að tala saman og/eða lesa saman er oft nóg til að fylla á samveru-tankinn eða sitja saman við mataborðið og fá sér kvöldbita og tala um viðburði dagsins. Við vitum flest að skjánotkun stuttu fyrir svefn getur haft neikvæð áhrif, bæði verður maður síður syfjaður og er lengur að sofna. Ef það er ágreiningur á heimilinu um skjánotkun fyrir svefn þá mæli ég með því að gera málamiðlun, koma í veg fyrir tölvuleikja eða samfélagsmiðlanoktun og að leyfa frekar áhorf á þætti eða mynd á kvöldin, það ætti ekki að vera neitt nýtt efni, heldur eitthvað sem barnið hefur séð/heyrt oft áður, þá getur það virkað sefandi og róandi. Auðvitað er betra að forðast skjátæki vegna birtu áhrifa eins og hægt er, en þetta getur verið ágætis samkomulag, að velja efnið af kostgæfni og koma þannig (vonandi) til móts við unglinginn. Þetta geta foreldrar haft í huga ca 2 tímum fyrir háttatíma eldri barna. Þó að þið reynið að sjálfsögðu að forðast alla skjávirkni stuttu fyrir svefn, þá skiptir máli hvað er verið að horfa á og hvaða hugsanir barnið tekur með sér inn í svefninn.



319 views

Comentários


bottom of page