top of page

Næturgjafir - er kominn tími til að hætta?

Margir foreldrar velta þessari spurningu fyrir sér, hvenær sé kominn tími til að hætta næturgjöfum og hér kemur mitt besta svar.

Börn þurfa að drekka/borða jafnt og þétt yfir daginn eða á tveggja til þriggja klukkutíma fresti. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar þau eru yngri, því ungbörn vakna oft vegna hungurs á nóttunni ef þau hafa ekki fengið að drekka reglulega yfir daginn. Ég hvet þig því eindregið til þess að vekja barnið upp úr daglúr til að gefa því að drekka, ef það hefur sofið lengi, til að viðhalda þessum takti í næringarinntekt. Hér fyrir neðan koma svo ýmis ráð fyrir foreldra sem kjósa að minnka eða hætta næturgjöfum. Hafðu í huga að hætta næturgjöfum þýðir ekki endilega að barnið hætti að vakna á nóttunni ! En það vaknar oftast sjaldnar og það er auðveldara að sussa það aftur til svefns þegar næturgjafir eru óþarfar.


Fylgdu þínu innsæi - kannski þarftu ekki að breyta neinu. Hlustaðu á sjálfan þig og hvað þú villt gera og hvað þú telur vera það besta fyrir barnið þitt. Ef þú spyrð einhvern álits eða ráða, hvort sem það er ég, barnalæknir, heilsugæslan eða einhver vinkona, þá hafa allir líklega ólíkar skoðanir og áherslur þegar kemur að næturgjöfum.


Kvöldmatur

Það er ágætt að gefa börnum eldri en sex mánaða, eða þegar barn er byrjað að fá fasta fæðu, staðgóðan kvöldmat snemma kvölds. Flest börn eru mjög svöng milli kl.17 og 18. Gott er að bjóða barninu svo aftur smá kvöldbita rúmum hálftíma fyrir háttatíma. Það er gott að kvöldbitinn sé kolvetnaríkur með lágum sykurstuðli eins og brauð, hafragrautur eða mjólk en þessi fæða inniheldur amínósýruna tryptophan sem er talin hafa róandi áhrif. Mörgum foreldrum finnst banani vera fullkominn kvöldbiti en hann er bæði mettandi, bragðgóður og inniheldur magnesíum og kalíum sem eru talin hafa vöðvaslakandi áhrif.

Hvaða aldur er bestur til að fækka eða hætta næturgjöfum ?

Það er misjafnt hvenær foreldrar hætta að gefa börnum að drekka á nóttunni. Oft er hægt að hætta næturgjöfum þegar börnin eru farin að fá fasta fæðu og borða nokkrar máltíðir á dag. Ráðleggingar benda á að barn sem hefur náð 7 kílóum og borðar amk 3 máltíðir á dag auk mjólkurdrykkju, þurfa ekki næturgjafir, þetta á sér stað oftast milli 6 og 9 mánaða aldurs. En valið er alltaf foreldra - hvenær tekin er ákvörðun um að hætta næturgjöfum. Það er algjörlega eðlilegt að barn undir 1 árs vakni á nóttu til að drekka. En ef það er hinsvegar að vakna 5 sinnum eða 10 sinnum til að drekka og hefur ENGA matarlyst á daginn - þá er líklega kominn tími á smá endurskoðun. Því svefn barnsins og svefninn þinn eru það allra mikilvægasta (ég er ekki hlutlaus) en staðreyndin er sú að við getum lifað lengur án næringar heldur en án svefns !


Að minnka eða hætta næturpela

Börn hætta oftast ekki sjálf að drekka á nóttunni. Þau eru flest nautnaseggir og vanaföst og kjósa að sjálfsögðu þessi notalegheit eins lengi og það er í boði. Settu þig í þeirra spor, það er mjög næs að vera tekin í fangið eða uppí foreldrarúm og þú færð að drekka eitthvað volgt og bragðgott á meðan þú hjúfrar þig upp við manneskjuna sem þú elskar mest.

Þegar foreldar taka ákvörðun að hætta eða minnka næturpela getur verið gott að gera það í skrefum og þá geta einhver af þessum ráðum verið gagnleg (ekki öll ráðin í einu)

 • minnkaðu magnið í pelanum jafnt og þétt

 • vatnsblandaðu pelamjólkina eða skiptu mjólkinni út fyrir vatn

 • skiptu pelanum út fyrir stútglas

 • lengdu tíman að fyrstu næturgjöf í t.d. 6 eða 8 klukkutíma og svæfðu barnið með snuði eða öðrum huggara fram að því

 • ekki svæfa barnið með pela, hvorki í daglúr né fyrir nóttina, reyndu að ýta undir það að barnið þurfi ekki á pelanum að halda til að sofna (rjúfa svefntengingu)

 • gefðu barninu að drekkur pela frammi á kvöldin og gættu þess að það sofni ekki við það að drekka

 • ekki bjóða kvöldpeli - bara kvöldmat og kvöldsnarl

Finndu aðferð sem hentar þér og þinni fjölskyldu. Margir foreldrar hætta ekki næturpela í skrefum, heldur taka ákvörðun um að hætta með pela einn tveir og bingó. Klippa túttuna á pelanum svo barnið sjái ekki til, sýna barninu svo pelan og bjóða því að henda honum í ruslið ! og þar með er allri pelagjöf hætt á heimilinu. Pelinn er ónýtur og pelinn er ekki í boði lengur. Skýr skilaboð. Þessi aðferð virkar best þegar börn eru orðin stálpuð og skilja að það sem fer í ruslið kemur ekki til baka.


Að minnka eða hætta næturbrjósti

Það er aðeins flóknara að minnka brjóstagjöf en pelagjöf. Bæði vegna þess að framleiðsla brjóstamjólkur snýst um framboð og eftirspurn þ.e. ef brjóstagjöfum fækkar á sólahring þá minnkar framleiðslan samhliða. Einnig vegna þess að mamma besta er jú bersýnilega með brjóstin föst við sig og ekki auðvelt að fjarlægja hana eða minnka magnið eins og með pelan. Hugsaðu málið vel áður en þú ákveður að hætta næturbrjósti.

Mig langar að benda á nokkur ráð sem styðja við mæður sem vilja minnka brjóstagjöf á nóttunni og vilja reyna að aftengja þannig brjóstgjöf og svefn

 • bjóddu fyrst snuð eða annan huggara en brjóstið þegar barnið vaknar

 • bjóddu vatn úr glasi

 • bíddu með það að bjóða næturbrjóst eins lengi og þú getur, markmiðið er s.s. að lengja tíman að fyrstu næturgjöfinni

 • gefðu brjóst ekki útaf liggjandi

 • þegar barnið hefur lokið við það að drekka, taktu það af brjósti, ekki leyfa því að "dudda þig eða hanga á þér" ef það er búið að drekka nóg að þínu mati

 • færðu brjóstagjafirnar út úr svefnherberginu á daginn

 • aftengdu brjóstgjöf og svefn með því að gefa barni bara að drekka þegar það er vel vakandi á daginn og ekki miklar líkur á því að það sofni við að drekka. Takturinn á daginn verður þá sofa, drekka, leika, knúsa, sofa.

 • fáðu aðstoð - pabbi eða einhver annar svæfir barnið á kvöldin og sinnir því þar til barnið fær að drekka hjá þér brjóst, lengdu þannig tíman að fyrstu gjöf í t.d. 6 eða 8 klst.

 • að hætta alveg næturbrjósti krefst þess yfirleitt að mamman sofi í öðru rými eða öðru húsi en barnið. Sá sem sinnir barninu þarf þá að vera góður og þolinmóður og hjálpa barninu á allan hátt að róa sig án brjóstsins og mömmu.


Gangi þér vel - Kristín


Heimildir

 • Allen SL, Howlett MD, Coulombe JA, Corkum PV. 2016. ABCs of SLEEPING: A review of the evidence behind pediatric sleep practice recommendations. Sleep Med Rev, Oct;29:1-14. doi: 10.1016/j.smrv.2015.08.006

 • Arna Skúladóttir, 2018. Draumaland. Saga útgáfa.

 • Binks H, E Vincent G, Gupta C, Irwin C, Khalesi S. 2020. Effects of Diet on Sleep: A Narrative Review. Nutrients, Mar 27;12(4):936. doi: 10.3390/nu12040936

2,029 views

Comments


bottom of page